Matvælaöryggi

Króksfjörður
Líkt og við aðra matvælaframleiðslu er öflugt eftirlit með bláskeljavinnslunni, – bæði varðandi afurð og vinnsluferli. Eingöngu er heimilt að markaðssetja skelfisk sem kemur frá veiðisvæði og vinnslustöð sem er undir eftirliti Matvælastofnunar og Hafrannsóknastofnunar. Bláskelin er þannig meðhöndluð eftir ströngu gæðastjórnunarkerfi sem fylgir íslenskum og evrópskum stöðlum. Áður en skelin fer á markað er rannsakað hvort þörungaeitrun sé til staðar í skelinni. Þannig fer hún á markað í mestu gæðum og trygg til neyslu.
Þörungaeftirlit á ræktunarsvæðum bláskelja Niðurstöður eftirlits á heimasíðu Matvælastofnunar
Hafrannsóknastofnun vaktar hafið við strendur landsins með tilliti til þörungaeitrunar Vöktunarsíða Hafrannsóknastofnunar
Þörungaeitrun í hafi
Bláskel nærist aðallega á svifþörungum sem hún síar úr sjónum og endurspeglar því vel aðstæður á uppeldisstað. Því getur neysla bláskeljar verið varasöm ef ekki er fylgst vel með með veiði- og ræktunarsvæðum. Af þeirri ástæðu er varasamt að tína bláskel í fjörum ef ekkert þörungaeftirlit er á svæðinu.
Þúsundir tegunda svifþörunga eru þekktar í hafinu og geta nokkrar þeirra valdið eitrun í skelfiski, sem er verulega hættuleg neytendum. Eitraðir þörungar sem valda ASP, PSP og DSP eitrun hafa fundist við Ísland og er reglulega fylgst með magni þeirra í hafinu víðs vegar við landið. Einkenni ASP eitrunar eru ógleði, niðurgangur og minnisleysi. PSP eitrun veldur truflun á taugaboðum, doða í andliti og útlimum og getur valdið lömun og/eða öndunarerfiðleikum. Ógleði, uppköst, þrautir í kviðarholi og niðurgangur koma fram við DSP eitrun.
Ef grunur er um eitrun eftir neyslu skelfisks ætti strax að leita læknis.

Bergsveinn, eigandi Nesskeljar